Elvar Smári Júlíusson er tónlistarmaður og hönnuður sem starfar á mörgum sviðum; við tónsmíðar, upptökustjórn, hljóðblöndun og útsetningar. Hann er virkur samverkamaður í íslensku tónlistarlífi og hefur unnið með listamönnum á borð við K.óla, Flott, Iðunni Einars og Sævari Jóhannssyni. Elvar hefur einnig gefið út eigin tónlist hjá útgáfufélaginu Möller Records og komið fram á tónlistarhátíðum á borð við Iceland Airwaves.

Árið 2024 kom út platan Í hennar heimi með Iðunni Einars, þar sem Elvar annaðist upptökustjórn, hljóðblöndun og lék á ýmis hljóðfæri. Platan hlaut Kraumsverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins. Að auki var eitt lag plötunnar, Sameinast, valið lag ársins í útvarpsþættinum Straumur á X977. Elvar hefur einnig hlotið viðurkenningar frá Íslensku tónlistarverðlaununum og Félagi íslenskra teiknara fyrir plötuumslög.

Elvar hefur tekið þátt í tónlistarvinnu fyrir kvikmyndir og sjónvarp, þar á meðal fyrir sjónvarpsþættina King & Conqueror undir handleiðslu Högna Egilssonar og Reykjavík Fusion með Veigari Margeirssyni. Árið 2025 hefur hann einnig unnið náið með hljóðfæraframleiðandanum Genki Instruments að þróun Kötlu; fyrsta íslenska hljóðgervlinum, en Katla er sérstaklega hönnuð með þarfir tónskálda að leiðarljósi.

Elvar stundaði nám í upptökustjórn við Rhythmic Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og tölvutónlist í Tónlistarskóla Kópavogs. Árið 2021 útskrifaðist hann með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands.